Jane Austen

Jane Austen var og er á margan hátt enn í hópi mestu skáldkvenna Breta. Þó svo að hún hafi ekki alltaf notið sannmælis þegar fjallað er um bókmenntir verður seint litið framhjá áhrifum hennar og hefur tíminn gengið þar í lið með henni því enn er bækur hennar mikið lesnar og sögur hennar stöðugt notaðar í kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Austen fæddist í Steventon á Suður-Englandi þar sem faðir hennar var sóknarprestur. Var hún sjöunda barn þeirra hjóna. Átti hún góða æsku með fjölskyldu sinni sem var bæði samheldin og lífleg.

Árið 1801 flutti hún svo ásamt foreldrum sínum og einu systur sinni, Cassöndru til Bath. Faðir hennar lést árið 1805 og þá fluttu mæðgurnar þrjár fyrst til Southampton og síðan fjórum árum síðar settust þær að í þorpinu Chawton, þar sem Jane bjó uns hún lést rétt rúmlega fertug.

Ekki átti fyrir Jane að liggja að ganga í hjónaband og mun hana þó ekki hafa skort tækifæri til þess. Virðist hún hafa lifað hamingjusömu lífi ásamt með móður sinni og systur, og þá voru bræður hennar og þeirra fjölskyldur í nánu sambandi.

Jane Austen lést í Winchester árið 1817, en þangað hafði hún farið til að leita sér lækninga. Var hún jarðsett þar.

Austen byrjaði strax að skrifa sem ung stúlka og hafði t.a.m. lokið við skopsöguna Love and Freindship þegar hún var fjórtán ára gömul. Sýna þessi fyrstu skrif hennar að þá þegar var hún orðin töluvert þroskaður höfundur. Það var samt ekki fyrr en hundrað árum síðar að þessum fyrstu skrifum hennar var safnað saman og þau gefin út á bók undir nafninu Juvenilia.

Sense and Sensibility

Fyrsta skáldsagan sem kom út eftir Austen var Sense and Sensibility, þar sem systurnar Elinor Dashwood og Marianne eru í aðalhlutverkum. Í fyrsta uppkasti sögunnar sem skrifað var árið 1795 er sagan kölluð einfaldlega Elinor and Marianne. Austen endurskrifaði skrifaði hana tveimur árum síðar og þá var titillinn Sense and Sensibility kominn á handritið. Sagan var þó ekki gefin út fyrr en árið 1811. Sagan fjallar eins og áður sagði um tvær systur og gerir Austen út á að sýna andstæður þeirra. Elinor er hin skynsama og ráðdeildarsama stúlka (sense), en Marianne lætur hins vegar stjórnast af viðkæmni og tilfinningum (sensibility). Eftir alls kyns uppákomur og ævintýri er það skynsemin sem stendur upp úr. Það sem þó hvað helst einkennir söguna er áherslan sem Austen leggur á hve mannleg samskipti geta verið flókin og nauðsyn þess að íhuga vel allar ákvarðanir.

Pride and Prejudice

Árið 1796, þegar Austen var 21 árs, skrifaði hún sögu sem hún nefndi First Impressions . Eins og með Sense and Sensibility endurskrifaði hún hana síðar og kom hún fyrst út árið 1813 undir nafninu Pride and Prejudice (Hroki og hleypidómar). Er hún sennilega hennar þekktasta og, að margra mati, besta saga. Helstu persónurnar í þeirri sögu eru Elizabeth Bennet og Fitzwilliam Darcy. Í sögunni etur Austen saman hleypidómum Elísabetar gegn aðlinum og hroka eða stolti aðalsmannsins Darcy. Stéttarvitundin reynir að hafa hemil á tilfinningunum en á endanum sættast andstæðurnar og tilfinningarnar taka völdin.

Northanger Abbey

Söguna Northanger Abbey sem kom út eftir lát Austen skrifaði hún á árunum 1797–1798. Þó svo að hún teljist kannski ekki til hennar bestu verka er hún áhugaverð fyrir margar sakir, en í henni gerir hún m.a. gys að sögum sem voru vinsælar á þeim tíma og mætti flokka sem gotneskar hryllingssögur.

Mansfield Park

Austen hóf svo að skrifa söguna Mansfield Park árið 1811, en hún kom út á bók árið 1814. Þar segir frá stúlkunni Fanny Price, sem segja má að sé nokkurs konar Öskubuska, en hún elst upp á fátæku heimili, en gefst svo það óvænta tækifæri að flytja til ríkra skyldmenna sinna sem búa á Mansfield Park setrinu. Söguhetjan Fanny ber uppruna sínum merki, en nær þó að fóta sig í heimi hinna betur megandi, þó eftir nokkur feilspor. Í sögunni leggur Austen mikið upp úr mannlegri breytni útfrá siðfræði, pólitík og trú. Viðhorfin til þeirra þátta eru á margan hátt íhaldsamari en í öðrum sögum hennar.

Emma

Skömmu áður en Mansfield Park kom hóf Austen að skrifa söguna Emma, sem var gefin út árið 1816, ári áður en hún lést. Söguhetjan Emma er á margan hátt óvenjuleg; nokkurs konar slettireka, og þarf nokkurn vilja til að hafa samúð með henni. Hún leikur sér að örlögum annarra á óskammfeilinn hátt og er óhætt að segja að flest það sem hún kemur nærri fær slæman endi. Að lokum sér hún þó að sér fyrir tilstilli vinar síns Johns Knightley, sem hún giftist á endanum. Eru margir sem vilja meina að Emma sé hennar besta verk en ekki Hroki og hleypidómar. Áherslan er eins og í fyrri bókum hennar á hvað það er sem fær fólk til að gera það sem það gerir og spila venjur og siðir nokkuð stóra rullu þar.

Persuasion

Austen hóf að skrifa söguna Persuasion árið 1815, en hún kom ekki út fyrir en að henni látinni árið 1818. Er hún jafnframt síðasta sagan sem vitað er að hún hafi skrifaði og halda margir því fram að í henni komist hún næst því að skrifa um sitt eigið líf. Söguhetjan, Anne Elliot er að glata æskuljómanum og upplifir það að lífið sé að ganga henni úr greipum. Sem ung kona hafði hún borið ástarhug til liðsforingja eins í hernum, em fékk ekki að njóta hans vegan þess að foreldrar hennar þóttu hann ekki nógu góður kostur fyrir hana. Er aðskilnaðurinn sár fyrir báða aðila, en að nokkrum arum liðnum hittast þau aftur og þá fær ekkert stöðvað þau frá að eigast.

Í sögunni gagnrýnir Austen á áhrifaríkan hátt stéttaskiptinguna og siðina og venjurnar sem sem henni fylgir. Sagan er mjög rómantísk og er kannski sú saga hennar sem kemst næst því að vera kölluð ástarsaga.

Sense and sensibility

Fyrsta skáldsagan sem kom út eftir Austen var Sense and Sensibility, þar sem systurnar Elinor Dashwood og Marianna eru í aðalhlutverkum. Í fyrsta uppkasti sögunnar sem skrifað var árið 1795 er sagan kölluð einfaldlega Elinor and Marianne. Austen endurskrifaði skrifaði hana tveimur arum síðar og þá var titillinn Sense and Sensibility kominn á handritið. Sagan var þó ekki gefin út fyrr en árið 1811. Sagan fjallar eins og áður sagði um tvær systur og gerir Austen út á að sýna andstæður þeirra. Elinor er hin skynsama og ráðdeildarsama stúlka (sense), en Marianne lætur hins vegar stjórnast af viðkæmni og tilfinningum (sensibility). Eftir alls kyns uppákomur og ævintýri er það skynsemin sem stendur upp úr. Það sem þó hvað helst einkennir söguna er áherslan sem Austen leggur á hve mannleg samskipti geta verið flókin og nauðsyn þess að íhuga vel allar ákvarðanir.